149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:10]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afbragðsgóða ræðu sem að hluta til er tilvitnun í mann sem hefur kynnt sér þessi mál afar vel. Ég var alla vega alinn upp við það í minni sveit að leggja við hlustir þegar menn með reynslu töluðu. Ég held að það sé alveg hárrétt sem hv. þingmaður ýjaði að, að fyrrverandi þingmaður, Hjörleifur Guttormsson, sé einn þeirra manna sem séu dómbærir og hafi staðgóða þekkingu. Hann talar ekki þarna á einhverjum pólitískum flokksnótum, heldur fyrir hagsmunum Íslands.

Það er svo mikilvægt að fram komi að það sem hefur birst hér í meðferð þessa máls er akkúrat það að verið er að fara eftir einhverjum flokkspólitískum línum á þann hátt að búið er að taka ákvörðun um að keyra mál í gegn án þess að taka hlutlausa skoðun á öllum gögnum málsins, vega og meta, og fara varfærnustu leiðina í svona mikilsverðu máli. Eða er hægt að hringja háværari viðvörunarbjöllum en að líkja þessu máli við að afhenda sjávarauðlind (Forseti hringir.) okkar í hendur erlendu yfirvaldi? Telja menn í alvöru (Forseti hringir.) talað að við stæðum hér og reyndum að verja það á þann hátt sem við gerum ef það væri til umræðu?

(Forseti (BN): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörk.)