149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ítreka enn á ný að ræða mín, þessi síðasta, var að miklu leyti í boði Hjörleifs Guttormssonar, sem átti textann að miklu leyti. Þetta setti ég fram vegna þess að Hjörleifur er trauðla eini maðurinn sem hefur sett fram þau varnaðarorð. Úr þessum sama ranni, þ.e. Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, hefur Ögmundur Jónasson líka stigið fram og lýst miklum efasemdum um að samþykkja málið, og ekki bara lýst efasemdum, hann hefur verið harður á móti því að við samþykkjum orkupakka þrjú. Þetta eru hvort tveggja menn sem börðust á móti innsetningu á orkupakka eitt og tvö ásamt með öðrum þingmönnum, eins og hæstv. forseta þessa þings, Steingrími J. Sigfússyni, þá hv. þingmanni. En nú er þetta fólk allt eins og umskiptingar, fulltrúar þessara flokka, ekki flokksfólkið sjálft, frekar en grandvarir Sjálfstæðismenn. Það er á allt öndverðum meiði við þingflokkana sína. Ég skil þetta ekki, herra forseti.

Auðvitað á þetta mál að vera hafið yfir flokkslínur. Og þó að við stöndum hér, Miðflokksfólkið, og séum að andæfa þessu máli, þá erum við ekki að berja trommur Miðflokksins. Við erum að berja trommu Íslands. Við viljum ekki að þessi orkupakki gangi yfir hér eins og hann er settur fram vegna þess að við teljum að það sé landi og þjóð til skaða.

Við teljum hins vegar að það ætti að nást pólitískur einhugur hér á þingi um að gera það sem rétt er í þessu máli, þ.e. að hafna pakkanum og senda hann í sáttameðferð.

Það hefur margkomið fram hjá hverjum sérfræðingnum af öðrum, hjá hverjum pólitíkusi af öðrum, sérstaklega þeim sem hættir eru, þeir sem núverandi eru þora ekki, þeir hafa ekki kjark til þess að nýta allan samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þeir hafa ekki kjark til þess. (Forseti hringir.) Og það er mjög slæmt, herra forseti.

Það versta sem við er að eiga, annað en blankir stjórnmálamenn, eru kjarklitlir stjórnmálamenn.