149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:20]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það yrði sannarlega slysalegt fari svo að þessi þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um innleiðingu orkupakkans yrði samþykkt. Það skýrist þá ekki af öðru en því sérkennilega ástandi sem nú ríkir í stjórnmálalífi þjóðarinnar. Það er ekki hægt að skýra það vegna þess hvernig málið er vaxið, vegna þess að þetta mál er lögfræðilegur óskapnaður. Þetta leyfi ég mér að segja með hæstaréttarlögmanninn og fyrrverandi formann Lögmannafélagsins að baki mér, (Gripið fram í: Margreyndan.) margreyndan, og tel að honum sé þetta afar ljóst og fleirum lögfræðingum í þingliði Sjálfstæðisflokksins.

Það að halda því fram dögum og vikum saman að það eigi að innleiða orkupakka en samt ekki innleiða hann vegna þess að það sé einhver lagalegur fyrirvari sem eigi að gera eitthvert fiff eða trix og bjarga okkur undan öllum hinum háskalegu afleiðingum orkupakkans, sem sjálfir lögfræðilegir ráðunautur ríkisstjórnarinnar hafa stafað ofan í þing og þjóð þegar þeir útskýra það að erlendir aðilar fái ítök um skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar og því sé helst að jafna við það að erlendum aðilum sé hleypt inn að fiskimiðum landsmanna, ákvörðunum um hagnýtingu þeirra. Auðvitað er þetta ekki samþykkt vegna þess að hér sé einhver málatilbúnaður eða rannsókn eða greining sem réttlætir að þetta sé samþykkt. Það er vegna þess að hér er stjórnmálaleg upplausn. Ég get kannski fengið að víkja að því örfáum orðum í seinna andsvari.