149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður, þetta er hárrétt vegna þess að það er ekki einungis málatilbúnaðurinn sem er ótraustur, það er málflutningurinn sem er ótraustur. Í einu orðinu er sagt: Þetta mál skiptir ekki nokkru máli, þessi pakki skiptir engu máli, en samt þarf að keyra hann í gegn með flýti, í flaustri. Það er eins og ekkert mál sé mikilvægara. Við höfum boðist til þess, Miðflokksfólkið, að leggja þetta mál til hliðar á þinginu og afgreiða nokkur veigamikil og nauðsynleg þingmál þannig að þingið sé ekki í klessu á síðustu dögunum. Á það hefur ekki verið hlustað. Við erum ekki að andmæla þessu máli til að koma einhverri óstjórn á störf þingsins, nema síður sé. Við erum að andæfa málinu vegna þess að við teljum það vanbúið, vont, illa ígrundað og jafnvel hættulegt.

Síðan koma menn og segja: Þetta er ekkert nema hræðsluáróður. Sama fólkið og segir: Ef þessu máli verður hafnað er EES-samningurinn og aðild okkar að honum í upplausn, í hættu.

Bíddu, hvaða áróður það, herra forseti? Hvaða áróður er það? Þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um að málið eins og það er er vanbúið, illa gert, illa ígrundað. Það þarf einfaldlega að fresta málinu til hausts, vinna það betur, ná um það pólitískri samstöðu á þinginu, þannig að allir gangi sömu leið, á sama hraða, á sama veg.

En því miður gera ríkisstjórnarflokkarnir ekki annað en að reyna að auka sundrungina um (Forseti hringir.) þetta mál, sem 62% þjóðarinnar eru andvíg og á samt að troða ofan í hálsmálið á þjóðinni.