149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er hverju orði sannara. Það eru einmitt flokkarnir sem við ættum að geta treyst í gegnum sögu þeirra þótt við séum þeim alls ekki sammála. Við ættum samt að geta treyst þeim til að standa vörð um sjálfstæði Íslands og íslenska hagsmuni, en þeir bregðast. Það gildir einu hvort það eru þeir sem eru vinstra megin á litrófinu eða hægra megin á litrófinu, forystuflokkar þar. Eins og hv. þingmaður nefndi er Framsóknarflokkurinn eins og hann er. En hinir tveir, það hefði átt að vera hægt að stóla á að þeir myndu alla vega standa með fylgismönnum sínum, þótt ekki væri annað, að þeir myndu hlusta á kjósendur sína.

Nú segi ég enn það sem ég hef sagt nokkrum sinnum hér: Hvers vegna fór ekki Sjálfstæðisflokkurinn bara heiðarlega fram í kosningabaráttunni og sagði: Við ætlum að innleiða orkupakka þrjú, í staðinn fyrir að fara gegn landsfundarsamþykkt, mjög nýlegri, sem kveður á um allt annað? Þetta eru náttúrlega hrein svik. Sama er uppi á teningnum með Framsóknarflokkinn. Þar var miðstjórnarsamþykkt um að íslenskar orkulindir ættu ekki að vera undir áhrifum útlendinga og útlends valds. Framsóknarflokkurinn fór ekki fram með þá stefnu í kosningum að hann ætlaði að innleiða orkupakka þrjú frá Evrópusambandinu, aldeilis ekki, þvert á móti. Og Vinstri græn fóru ekki fram í kosningum og sögðu: Heyrðu, við ætlum að markaðsvæða orkulindir Íslands. Það voru ekki kosningaslagorðin.

Allir þessir flokkar ganga í berhögg við það sem þau lofuðu og eflaust mun það koma þeim í koll. En það er aukaatriði. Aðalatriðið er að þetta mun hafa (Forseti hringir.) gríðarlega vond áhrif fyrir íslenska þjóð.