149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:00]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Forseti. Það vill svo til að í dag fara fram kosningar í Bretlandi til Evrópuþingsins. Þessar kosningar markast mjög af umræðunni um Brexit, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Fyrir vikið hefur þessi atburður og öll sú umræða sem honum tengist, heilmikla skírskotun til umræðunnar hér um þriðja orkupakkann. Saga þessa máls, Brexit, eins og það er kallað í Englandi, eða útganga Bretlands úr Evrópusambandinu, er mjög lýsandi fyrir vandann sem þjóðríki finna sig í í samskiptum við Evrópusambandið en um leið vanda svo margra stjórnmálaflokka sem virðast hafa gleymt því til hvers þeir eru kosnir, virðast hafa gleymt tengingunni við kjósendur og jafnvel og oft og tíðum stuðningsmenn, bakland flokkanna. Það er áhugavert að setja þetta tvennt í samhengi til að átta okkur betur á því hvað er að gerast á Alþingi Íslendinga.

Nú eru liðin þrjú ár frá því að breskur almenningur tók ákvörðun um það í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem fleiri tóku þátt en nokkru sinni fyrr í nokkurri atkvæðagreiðslu í Bretlandi, að Bretland skyldi segja skilið við Evrópusambandið. Fyrir því höfðu menn gild rök. Margir voru búnir að fá nóg af afskiptasemi ESB, íhlutun þess í bresk innanríkismál og höfðu fengið sig fullsadda af því að erlend stofnun væri fyrst og fremst að huga að markmiðum sínum og hagsmunum fremur en hagsmunum hvers þjóðríkis fyrir sig. Og að mati meiri hluta Breta fóru þessir hagsmunir, eins og Evrópusambandið skilgreindi þá, heildarhagsmunir þess, oft á svig við hagsmuni bresks almennings. Svoleiðis að haldin var atkvæðagreiðsla og þar fékkst niðurstaða.

Niðurstaðan var þessi: Bretland skyldi ganga úr Evrópusambandinu. En þá hófst löng saga af endalausum vandræðagangi þar sem kerfið í Evrópusambandinu, Brussel-valdið, reyndi í hverju skrefi að þvælast fyrir vilja breskra kjósenda.

En það sem var kannski verra var að breskir stjórnmálamenn, kosnir sem fulltrúar þjóðar sinnar tóku margir hverjir þátt í því að reyna að skemma fyrir og hindra að lýðræðislegur vilji almennings í landinu næði fram að ganga. Þetta hefur auðvitað aðrar skírskotanir í íslenskri sögu, en skírskotunin nú er að mínu mati mjög skýr.

Hér erum við að ræða mál þar sem mikill meiri hluti almennings hefur ekki aðeins efasemdir heldur er beinlínis mótfallinn því að kjörnir fulltrúar hleypi málinu í gegn, samþykki það. En hver eru viðbrögð þessara kjörnu fulltrúa? Þau eru að skella annaðhvort við skollaeyrum eða, eins og svo mörg dæmi eru um frá Bretlandi, reyna að afvegaleiða umræðuna og tala máli valdsins í Brussel fremur en að fylgja afstöðu íslensks almennings.

Og nú stöndum við frammi fyrir því að menn eru tilbúnir til að ganga svo langt í þessum efnum hér á Alþingi Íslendinga að þeir vilja helst fela umræðuna, vilja helst að hún fari fram seint um nótt. Stuðningsmenn málsins treysta sér reyndar ekki til að taka þátt í henni sjálfir en vilja að sem minnst fari fyrir umræðunni og að þingið, þingflokkar stjórnarliðsins og stuðningsflokkar þeirra, geti helst afgreitt það með eins lítilli umræðu og kostur er. En þetta er mjög varasöm aðferð. Og ég efast um að hún muni reynast þessum flokkum, þeim flokkum sem ekki líta til lýðræðislegs vilja íslensks almennings, (Forseti hringir.) nokkuð betur en hún hefur reynst þeim flokkum í Bretlandi sem litið hafa fram hjá almannaviljanum.