149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:08]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Þetta er örugglega ekki fjarri lagi. Ég tel reyndar að það sé mjög sterk fullveldistaug í flestum Íslendingum og í flestum stjórnmálaflokkum á Íslandi, en þar er ég að vísa til sögu flokkanna og til stuðningsmanna þeirra. Það er hins vegar áhyggjuefni hversu margir íslenskra stjórnmálaflokka hafa aðlagast því sem ég hef kallað kerfisvæðingu, orðið e.t.v. á einhvern hátt blindir fyrir þeirri staðreynd að með því að lýðræðislega kjörnir fulltrúar afsali sér valdi til ókjörinna fulltrúa, til kerfisins, eru þeir um leið að grafa undan fullveldinu. Út á hvað gengur fullveldið? Það gengur ekki hvað síst út á lýðræði, að þegnar tiltekins lands geti ráðið sínum málum sjálfir.

Almennt segja menn um fullveldi að það snúist um að hvert og eitt land fái að ráða sér sjálft. En hvað er átt við með því? Átt er við að íbúar landsins fái að ráða sér sjálfir. Þegar stjórnmálaflokkar hætta að líta til vilja íbúa eigin lands og fara jafnvel að fylgja í blindni vilja, ekki endilega íbúa annarra landa heldur stofnana í öðrum ríkjum, þá er með því verið að grafa undan fullveldi landsins. Við skyldum aldrei gleyma því að fullveldið kom ekki af sjálfu sér, eins og flestir þekkja, og það varðveitist heldur ekki af sjálfu sér. Það þarf stöðugt að standa vörð um fullveldið og minna sig á hvers eðlis það er, til hvers það er og hvaða árangri það hefur skilað okkur sem þjóð.