149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:10]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að sú hugleiðing sé holl við þessar aðstæður að við hugsum hvar við erum stödd. Ég átti ánægjulegt samtal við tvo menn fyrr í dag þar sem leiðtogahæfni í stjórnmálum og í lífinu almennt var rædd, hvað það væri sem einkenndi góða leiðtoga og hvað það væri sem gerði það hins vegar að verkum að menn misstu leiðtogahæfni sína af sömu sökum. Við ræddum þá kenningu að það væri í mannlegu eðli að fara farveg hinar minnstu mótstöðu, eins og heitir á ensku, „the path of least resistance“, með leyfi forseta. Hún felst í því hreyfa sig svolítið eins og vatnið, að leita að þeim farvegi þar sem hindranir eru minnstar.

Við þessar samræður varð ég minnugur þess, sem er í ekki svo fjarlægri fortíð, að Ísland átti í samningaviðræðum sem voru þess eðlis að þjóðarheill lá undir og hétu Icesave. Þar voru gerðar tilraunir til þess að fara þennan farveg hinnar minnstu mótstöðu og gangast undir hið erlenda vald. En í því tilfelli var hins vegar að finna leiðtoga sem þorði og gat og spyrnti við fótum. Það skilaði okkur því (Forseti hringir.) að Ísland sigraði í þessu máli. Einn af þeim leiðtogum sem þar stóðu var forseti Íslands á þeim tíma sem beitti neitunarvaldi gagnvart því að skrifa undir lög.