149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:20]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kveikti aðeins í mér þegar hann nefndi samspil ACER og ESA, því að þetta er atriði sem ég hef mikið verið að skoða og er algjört grundvallaratriði í þessu máli öllu. En það sem ég myndi vilja bæta við og spyrja hv. þingmann út í, af því að hann hefur reynst afburðagóður greinandi og kynnt sér þessar reglugerðir í þaula: Hefur hv. þingmaður skoðað hvað gerist þegar rís ágreiningur um ákvarðanir ACER? Hvaða úrskurðarvald er þar fyrir hendi? Það er nefnilega svolítið merkilegt. Það er ACER sjálft. Þeir eru með sína eigin úrskurðarnefnd, sinn eigin hæstarétt til að taka endanlega ákvörðun um ákvarðanir sem stofnunin hefur tekið sjálf. Og er þá ekki hv. þingmaður sammála mér um að einmitt það sé lýsandi fyrir hvers eðlis sú stofnun er, að þó að hlutirnir séu orðaðir þannig að hún sendi frá sér drög sem mönnum er ætlað að fylgja sé hún í raun að senda út tilskipanir, fyrirmæli? Og fylgi menn ekki þessum fyrirmælum þá er bara stofnuninni sjálfri eða mæta, fyrst í einni mynd og svo öðrum starfsmönnum stofnunarinnar, hugsanlega á annarri hæð í skrifstofuhúsnæði þessarar stofnunar, en engu að síður starfsmönnum sömu stofnunar.

Er þetta þá ekki enn eitt dæmið um hversu ólýðræðislegt þetta Evrópukerfi allt saman er orðið? En í stað þess að huga að hinu lýðræðislega og jafnvel hinum hefðbundnu reglum réttarríkisins er það látið víkja fyrir markmiðunum, stóru markmiðunum sem Evrópusambandið hefur sjálft skilgreint.