149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég ætla að halda áfram með það sem ég skildi við í morgun og reyna að bregða upp mynd af því hvernig ástand orkumarkaðsmála verður að aflokinni innleiðingu orkupakkans og fjalla síðan um hvernig sú staða verður eftir að sæstrengur hefur verið lagður.

Ég held að margir séu sammála um að allt of lítil orka, ef svo má segja, sáralítil í rauninni, fór í það að reyna að teikna upp sviðsmyndir af því hvernig orkumarkaðsmál muni þróast verði af lagningu sæstrengs. Það hefur ósköp lítið upp á sig ef íslensk þjóð verður í þeirri stöðu að þingið hafi hleypt þessum svokallaða þriðja orkupakka í gegn á grundvelli þess að settir yrðu mjög merkilegir fyrirvarar sem mismikið hald er í eins og ljóst er orðið.

Sá sem ég vil nefna er fyrirvarinn um að Alþingi hafi aðkomu að ákvörðun um lagningu sæstrengs. Ég ætla í næstu ræðu minni að fara inn á tvær greinar sem fyrrverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins skrifuðu í Morgunblaðið fyrir stuttu síðan. Annars vegar grein sem Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra og forseti Alþingis, skrifaði og hins vegar grein sem Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, skrifaði.

Það hefur ósköp lítið upp á sig að hafa einhverja aðkomu að því hvenær sæstrengur verður lagður ef menn síðan, að slíkum streng lögðum, missa stjórn yfir orkumarkaðsmálum. Það er sviðsmyndin sem utanríkisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið hafa algjörlega vanrækt að teikna upp.

Að Íslandi tengdu, ef svo má segja, er alveg ljóst að staðan hér heima verður breytt í öllum grundvallaratriðum hvað yfirstjórn orkumarkaðsmála varðar. Þá er það bara þannig að þó að menn séu ósköp lukkulegir með að fá einhvers lags greiðslufrest á hinum stjórnskipulegum vandamálum er þeim ýtt fram að þeim tíma að Ísland verði tengt með sæstreng. Og það er sú sviðsmynd sem ég hið minnsta upplifi að almenningur geri kröfu um að fá að sjá hvernig líti út.

Svör stuðningsmanna innleiðingarinnar eru meira og minna á þá vegu að ekki þurfi að hafa áhyggjur af þessu. Það reyni ekkert á þetta fyrr en sæstrengur verður lagður. En við eigum bara heimtingu á því að stjórnvöld komi fram með bærilega skýra sýn á það hvernig orkumarkaðsmál og stjórn þeirra muni þróast í kjölfar þess að Ísland verði tengt með sæstreng. Það er ekki boðlegt að hér sitji þingmenn — þó að það séu, að venju, bara þingmenn Miðflokksins sem sitja í salnum núna fyrir utan hæstv. forseta — og þeim sé uppálagt að samþykkja þennan orkupakka án þess að nein tilraun hafi verið gerð, sem einhverju máli nær, að teikna upp þær sviðsmyndir, vinna, greiningar sem nauðsynlegar eru til ákvörðunartöku sem þessarar, til að fólk geti haft einhverja ró í huga og hjarta yfir því að afsal yfirráða og stjórnar orkumarkaðsmála verði með þeim hætti að fólk sætti sig við.

Ég held reyndar að mjög stór hluti þjóðarinnar sætti sig ekki við neitt framsal á valdi hvað þessa hluti varðar til yfirþjóðlegrar erlendrar stofnunar. Í síðustu könnun sem spurt var beint um þetta held ég að hafi skilað þeirri niðurstöðu að um rúmlega 80% landsmanna væru mótfallin slíku.

Nú bjóða stjórnvöld okkur upp á að þurfa að taka ákvörðun um innleiðinguna án þess að þessar sviðsmyndir séu teiknaðar upp. Það er auðvitað óboðlegt.