149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:43]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Bergþór Ólason fjallaði um að ekki hefði verið nóg rætt um áhrifin þegar sæstrengur verði kominn og vísaði í þessa svokölluðu fyrirvara, sem öllum má ljóst vera að virðast vera einhvers konar tilraun til þess annars vegar að afvegaleiða umræðuna um raunveruleg áhrif þessarar innleiðingar og hins vegar kannski að fresta vandanum.

En menn hafa svo velt því upp hvort innleiðing orkupakkans kunni að ýta undir lagningu sæstrengs og að menn muni fara fram á að t.d. ACER hlutist til um að ryðja úr vegi hindrunum gagnvart slíkri sæstrengslagningu.

En svo má líka velta fyrir sér hvort það þurfi nokkuð slíka íhlutun til, eða hvort það kerfi sem í hlut á hvað varðar lagningu sæstrengs sé ekki bara að vinna að þeirri lagningu og muni ná sínu fram með einum eða öðrum hætti ef enginn spyrnir við fótum. Meira að segja Landsvirkjun hefur sett þetta verkefni, að því er virðist, efst á forgangslista og víða er verið að vinna að undirbúningi slíkrar framkvæmdar.

Svona í ljósi reynslunnar: Má þá ekki ætla, hv. þingmaður, að þegar kerfið hefur bitið eitthvað í sig og það búið að breiðast út um stjórnkerfið, orðið viðtekin skoðun þar að rétt sé að þetta gerist, þá sýnir bara reynsla okkar af stjórnmálunum að kerfið muni hafa betur, það muni ná sínu fram, muni ná sinni tengingu, þó að einhverjir stjórnmálamenn kunni að hafa efasemdir um tíma?