149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni andsvarið. Þetta er akkúrat málið. Reynslan blasir við á svo mörgum sviðum.

Ég ætla að taka eitt dæmi úr raunheimum, þar sem við heyrum af og til flugvélar fljúga yfir Alþingishúsið. Stjórnkerfi Reykjavíkurborgar lagðist í einhvers lags flugvallarflensu fyrir þó nokkru síðan og má eiginlega segja að hersingin hafi marserað, á köflum hljóðlega en alltaf tryggilega, í átt að því markmiði sínu að losna við flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Þá skipti engu máli þótt stöku stjórnmálamenn hafi viljað verja völlinn og tryggja veru hans á núverandi stað og þá hagsmuni sem þeirri staðsetningu fylgja. Alltaf marseraði kerfið áfram og menn biðu af sér þá stjórnmálamenn sem eitthvað vildu streitast við.

Það er auðvitað hætt við að eitthvað sambærilegt verði raunin í tengslum við orkumarkaðsmálin. Ekki þarf annað en að fara á heimasíðu Landsvirkjunar, þar liggur afstaða þess fyrirtækis fyrir. Það eru ótal aðrar síður sem útlista með heiðarlegum og opnum hætti hvert markmið tiltekinna verkefna sé.

Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að teiknuð verði upp einhver raunhæf mynd fyrir okkur sem hér erum varðandi það hvernig málum verður háttað eftir að sæstrengur hefur verið lagður. Það er ekki ósanngjörn krafa að gera til stjórnvalda að menn viti hvaða sýn menn hafi á framhaldið þegar búið er að segja A í máli þar sem svona rík krafa er um að B verði sagt skömmu síðar.