149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ekki ósanngjörn krafa, segir hv. þingmaður. Ég myndi taka sterkar til orða og segja að það sé í rauninni algjörlega fráleitt að okkur skuli ætlað að hleypa þessu máli í gegn án þess að menn hafi reynt að greina hin augljósu framtíðaráhrif, haldi hlutirnir áfram að þróast eins og allt stefnir í. Það er unnið að lagningu sæstrengs, m.a. í ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun.

Hv. þingmaður nefndi flugvöllinn, sem er mjög gott dæmi um þessa tilhneigingu kerfisins til að halda áfram á sömu braut, sama hvað á dynur. Það er gerist t.d. í því tilviki að þrengja að flugvellinum smátt og smátt, sama hvað kemur í ljós eða hvað kemur upp á. Haldið er áfram að þrengja að honum til þess að ýta honum í burtu.

En það þarf ekki að leita langt að öðru sambærilegu dæmi. Landspítalinn. Þó að löngu sé komið í ljós, og mér heyrist flestir fallast á það, að óskynsamlegt sé að halda framkvæmdum áfram við Hringbraut, og að miklu skynsamlegra sé á allan hátt að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað, þá heldur kerfið bara áfram á sinni braut án þess að færa fram rök fyrir þeirri staðreynd.

Og þegar við setjum þetta í samhengi við áhuga kerfisins á lagningu sæstrengs getum við velt fyrir okkur hvernig umræðan yrði í þinginu þegar þingmenn færu að reyna að spyrna við fótum. Ætli þyrfti að bíða lengi eftir því að einhverjir þingmenn aðrir færu að útskýra að slíkir menn væru einangrunarsinnar, lifðu í fortíðinni, væru með popúlíska rökleysu og eitthvað slíkt? Ég er svolítið hræddur um það, forseti, að ef við samþykkjum þennan þriðja orkupakka séum við eingöngu að flýta því að (Forseti hringir.) kerfið nái fram vilja sínum hvað þetta varðar.