149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir andsvarið. Það er vissulega rétt að einstefnulokarnir eru víða og enn nærtækara dæmið en flugvallardæmið, sem ég tók áðan, er að horfa til þess sem atvikaðist varðandi uppbygginguna á umferðareyjunni við Hringbraut þar sem mikill fjöldi fólks hugsar á hverjum degi efnislega: Guð minn góður! Hvað höfum við gert? Hvers lags rugl var þetta í okkur að reyna að troða þessari risaframkvæmd á þessa umferðareyju sem er við Hringbraut og öllu því sem henni fylgir?

En þessi mál, brottför flugvallarins úr Vatnsmýrinni, uppbygging Landspítala við Hringbraut og lagning sæstrengs eru allt saman mál sem hafa sömu eðliseinkenni hvað það varðar hvernig kerfið hanterar þau. Það er marserað, oft hljóðlega en alltaf í sömu áttina. Hægt er að setja mikla peninga í undirbúning þessara verkefna. Í tilviki flugvallarins er það hjá Reykjavíkurborg að miklu leyti til, í tilfelli Landspítalans er það væntanlega úr skúffum fjármálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis, í tilfelli sæstrengs kemur það að miklu leyti, væntanlega, úr skúffum Landsvirkjunar og síðan erlendra haghafa.

Þegar hersingin er marseruð af stað þarf alveg ógnarafl, einbeitingu og einurð ætli menn að spyrna við fótum. Ég held að þessi vegferð sé löngu hafin og hersingin löngu lögð af stað í tengslum við sæstrenginn. Þess vegna er ámælisvert — og auðvitað gæti maður tekið sterkar til orða — að ekki sé búið að teikna upp sviðsmynd sem (Forseti hringir.) útlistar hvað tekur við, að innleiddum þriðja orkupakkanum og lögðum sæstreng.