149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ef allt er eðlilegt er það auðvitað stjórnmálamanna að forma stefnuna. En það hefur verið mikið gagnrýnt, og ég held að á engan sé hallað ef ég segi að formaður Miðflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi verið manna duglegastur að gagnrýna hvað embættismannakerfið er frekt til fjárins, eða frekt til valdanna, er kannski réttara að segja, hvað stefnumörkun varðar. Það er hluti af því að stjórnmálamenn verða að setja sig í stand og fara að þora að stjórna aftur. Það hefur vantað mikið upp á það undanfarin ár.

Varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á sem sneri að þeim kostnaði, og fyrirspurn hans um þann kostnað, sem fallið hefur til hjá Landsvirkjun síðastliðin tíu ár við undirbúning á lagningu sæstrengs, þá kom í huga mér, og ég vona að mig sé ekki að misminna, þegar fyrrverandi forstjóri Landsvirkjunar, Jóhannes Nordal, settist í helgan stein hafi hann verið spurður í viðtali akkúrat þegar hann hætti, að mig minnir, í hvað hann ætlaði síðan að nota næstu árin eða elliárin — ég man ekki nákvæmt orðalag. Þá svaraði hann því til, að mig minnir: Ég ætla að leggja kapal.

Mér þótti þetta skemmtilega orðað. Kannski var þetta grín hjá honum en þetta fannst mér alla vega fannst til þess að þessar vangaveltur hefðu verið inni í stofnuninni allt frá þessum tíma og fyrir þann tíma.