149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins yfir í aðra sálma en þó tengda. Komið hefur fram ítrekað í þessum sal og víðar að ýmsir stjórnarþingmenn segjast hafa verið mjög tregir til að samþykkja framlagningu tillögu um þriðja orkupakkann. Þeir hafa nokkrir staðið í pontu og farið yfir það að þetta hafi verið svona vaxið, en hafa síðan bent á að þeir hafi skipt um skoðun, þeim hafi snúist hugur, vegna þess að lögð hafi verið fram einhver sannindi sem þeir taka gild og sem sýna þeim fram á það að þetta sé allt í lagi.

Ég hef mikið verið að velta því fyrir mér hvaða atriði það séu sem hafi gert mönnum kleift að skipta um skoðun og hoppa á þennan vagn.

Þá koma fyrst upp í hugann svokallaðir fyrirvarar. Í þessari umræðu undanfarin dægur, og reyndar áður, finnst mér einhvern veginn að flett hafi verið ofan af þessum fyrirvörum og menn hér í okkar hópi eru enn að reyna að komast að því hvernig þessir fyrirvarar eru settir upp, hvort þeir séu líklegir til að standast o.s.frv.

Mér dettur í hug: Getur verið að þessir þingmenn, sem eru allnokkrir, sem hafa sagt að þeir hafi upphaflega verið á móti þessu máli, hafi hreinlega verið blekktir til fylgilags við þetta mál með því að einhverjum fyrirvörum sem smíðaðir eru einhvers staðar af einhverjum hafi verið veifað framan í þá? Að þeir hafi tekið agnið, ef svo má að orði komast, og látið blekkjast af þeim sem báru þetta fram?