149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Mér var bent á grein sem var sett inn á bloggsíðu fyrrverandi þingmanns Ögmundar Jónassonar. Þetta er innsend grein sem heitir svo mikið sem „Fölsk neytendavernd og sýndarsamkeppni — orkupakki þrjú“. Sá sem skrifar þessa grein, sem ég kann svo sem ekki deili á, fer að mínu mati mjög vel yfir málið og segir í upphafi máls síns, með leyfi forseta:

„Sumir þingmenn sem styðja þriðja orkupakkann telja felast í honum mikla „neytendavernd“ og „samkeppni“ sem muni gagnast neytendum. Þegar rætt er um „neytendavernd“ og „samkeppni“ þarf að byrja á byrjuninni. Hver er hún? Svarið felst í skoðun á grunnþáttum markaða, stærð markaða, skilvirkni markaða, teygni markaða og hegðun neytenda.

Ísland er lokaður markaður þegar kemur að rafmagni og gjöfular náttúruauðlindir gera fært að framleiða tiltölulega vistvæna orku (að minnsta kosti miðað við kol, olíu og kjarnorku) þjóðinni til handa. Það, ásamt opinberu eignarhaldi á virkjunum og dreifikerfi, hefur tryggt íslenskum neytendum mjög hagstætt raforkuverð, til langs tíma.“

Síðan getur greinarhöfundur þess að augljóst sé að þegar málin séu skoðuð í samhengi við þróun orkuverðs í Evrópu sé ekki að vænta lækkunar raforkuverðs á Íslandi sem er „omvendt“ við það sem tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins héldu fram í samhljóða blaðagreinum.

Áfram segir höfundur:

„… heldur þvert á móti. Raforkuverðið mun að sjálfsögðu hækka, til samræmis við evrópskt verð. Allt tal um annað er bara blekkingarleikur þar sem þjóðinni er enn og aftur sagt ósatt. Skammarleg hegðun opinberra fulltrúa sem þar eiga hlut að máli.“

Síðan fer hann í samanburð og segir:

„Kílóvattstundin á Íslandi er þarna sögð 0.1457 evrur. Meðalverðið í Evrópusambandinu er hins vegar 0.2113 evrur og 0.2242 evrur á evrusvæðinu. Út frá þessu sést að kílóvattstundin í Evrópusambandinu (meðaltal) er um 45% hærri en á Íslandi.“

Þetta er sem sagt veruleikinn. Eins og greinarhöfundur segir sjálfur, með leyfi forseta:

„Þetta er „neytendaverndin“ sem stuðningsmenn þriðja orkupakkans vilja færa þjóð sinni! Samræmingin verður að sjálfsögðu öll upp á við. Eða hvarflar það að einhverjum að kílóvattstundin í Evrópu muni lækka, til samræmis við raforkuverð á Íslandi?“ — Greinarhöfundur bendir sérstaklega á Danmörku í þessu dæmi.

Þessi ágæti maður víkur síðan orði að okkur þingmönnum Miðflokksins, sem ég kann honum þakkir fyrir. Hann segir að það sé vel að þingmenn fáist til að ræða málið. En segir síðan, með leyfi forseta:

„En það sýnir fádæma hroka og sambandsleysi við þjóðina að stuðningsmenn pakkans á þingi telja sér ekki skylt að taka þátt í þeirri umræðu en flytja áróður sinn frekar í blaðagreinum og frammíköllum. Það er þeim til lítils sóma.“

Ég greip þessa grein ekki endilega með mér vegna þess að hún kæmi okkur Miðflokksmönnum vel heldur vegna þess að í henni kristallast það ástand sem við höfum fundið undanfarin dægur, að hinn almenni kjósandi, hinn almenni borgari á Íslandi, er að fylgjast mun meira með þeirri umræðu sem hér hefur verið en maður hélt. Og hvers vegna er það? Það er vegna þess að þessu fólki er kannski svipað innan brjósts og okkur sem hér erum. Þessu fólki er ekki sama hvað verður um íslenskar auðlindir. Því er að sjálfsögðu ekki sama hvað orkan kostar. Því er að sjálfsögðu ekki sama hvernig þróunin á því verður inn í framtíðina, fyrir börn okkar og barnabörn.

Ég tek því undir með þessum ágæta manni þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Sitjandi þingmaður á aldrei að telja sig of góðan til þess að ræða mál af fullri einurð og svara spurningum sem fyrir hann eru lagðar.“

Það er einmitt það sem við höfum verið að biðja um í þessari umræðu og nokkuð lengi. Við höfum verið að biðja um að fá viðtal við stuðningsmenn orkupakkans til að fá að vita hvað í honum, sem hefur farið fram hjá okkur, (Forseti hringir.) er svona stórbrotið og ótrúlega gott að við verðum að taka hann upp.