149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:07]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er mikið af fólki fyrir utan þennan þingsal sem sýnir umræðunni mun meiri áhuga en þeir gera sem ber skylda til að vera hér á meðan þingfundur stendur yfir samkvæmt þingsköpum, ef ég man rétt. En fólk verður svo sem að eiga það við eigin samvisku hvort það sinnir því sem það bauð sig fram til að sinna.

Varðandi raforkuverðið og þá tilvitnun sem kom fram í ræðu hv. þingmanns þar sem hann vitnaði til þess að í téðri grein segir, ef ég man þetta rétt, að raforkuverð myndi ekki lækka, eins og haldið hefur verið fram fullum fetum í ræðum þeirra sem fylgja þessu eftir, heldur muni það að sjálfsögðu hækka. Á hverju skyldi bréfritari byggja þá niðurstöðu sína? Getur verið, hv. þingmaður, að hann byggi það á 36. tölulið innleiðingar nr. 72/2009 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Landsbundin eftirlitsyfirvöld skulu geta ákveðið eða samþykkt gjaldskrár eða aðferðafræðina, sem býr að baki útreikningum á gjaldskrám, á grundvelli tillögu flutnings- eða dreifikerfisstjóra eða á grundvelli tillögu sem þessir stjórar og notendur kerfisins hafa orðið ásáttir um. Þegar þau sinna þessum verkefnum skulu landsbundin eftirlitsyfirvöld tryggja að gjaldskrár vegna flutnings og dreifingar séu án mismununar og kostnaðartengdar og skulu taka tillit til langtíma frávikskostnaðar við net sem komist er hjá með dreifðri raforkuframleiðslu og stjórnun eftirspurnar.“

(Forseti hringir.) Þarna er verið að tala um markað Evrópusambandsins, sem er u.þ.b. 50% hærri taxti en við þekkjum á Íslandi.