149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki nóg með að þessi ágæti maður hafi sett akkúrat þetta í greinina heldur er hann líka með línurit sem sýna stöðuna á milli hinna ýmsu landa í Evrópu sem styðja það. Það eru opinber gögn sem hann hefur fundið og sett inn í greinina.

En hann segir líka, og ég hef tilhneigingu til þess að vera honum sammála, í öðrum kafla í greininni, Sýndarsamkeppni, að þannig hafi það alltaf verið á Íslandi að samkeppni snúist fljótlega upp í fákeppni. Hann nefnir nokkur dæmi sem eru okkur öllum augljós, matvara, bensín, olía o.s.frv., tryggingastarfsemi, bankar, flutningastarfsemi.

Og hann spyr: Hvað gerist þegar sýndarsamkeppni kemst á?

1. Verðið fyrir þjónustuna hækkar út fyrir allt velsæmi.

Það er rétt.

2. Þjónustan versnar, oft til mikilla muna.

Þetta er það sem sá ágæti maður óttast að gerast muni ef þriðji orkupakki Evrópusambandsins verður innleiddur hér. Hann óttast að svokölluð samkeppni í orkugeiranum — og við erum búin að heyra af því í þessari umræðu að 350 heimili af 140.000 heimilum í landinu hafi skipt um birgja í rafmagni árið 2017. Það sýnir okkur að sú neytendavernd og aukna samkeppni sem er boðuð í þessum orkupakka er hjóm eitt. Það er í sjálfu sér rangt og illa gert að blekkja fólk eða reyna að blekkja fólk með því að veifa einhverjum frösum framan í það, eins og aukin samkeppni og einsleitni og þjónusta og lægra verð, (Forseti hringir.) þegar við sjáum fyrir framan okkur að ekkert af því mun rætast. Þetta eru öfugmæli allt saman.