149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:16]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli mína á þessari góðu grein sem ég hyggst svo sannarlega lesa í heild. En það var einkum tvennt sem kom við sögu í stuttri ræðu hv. þingmanns. Annars vegar er það fjarvera allra þeirra sem styðja innleiðingu þessa máls. Þá velti ég fyrir mér: Hvenær lét fólk sig hverfa? Misminnir mig eða var það ekki um það leyti sem í ljós kom að fyrirvararnir væru ekki til? Fyrst varð uppi fótur og fit og menn fóru um allt að leita að fyrirvörunum. Þegar þeir áttuðu sig á því að þeir væru annaðhvort ekki til eða í besta falli svolítið vafasamir virðist hafa dregið úr þrótti og þreki þessara hv. þingmanna og þeir ekki lengur treyst sér til að styðja þetta mál, sem þeir þó virðast ætla að greiða atkvæði með.

En hitt varðaði neytendamálin. Að öðrum ólöstuðum held ég að óhætt sé að segja að hv. þingmaður sé mesti neytendafrömuður okkar þingmanna hér á þingi. Hann hefur verið gríðarlega ötull í baráttunni fyrir neytendavernd og bættum hag neytenda. Getur það verið skýringin á því að menn skuli halda öðru eins fram og því að þetta sé spurning um neytendavernd — af því að ég tek eftir að hv. þingmaður er búinn að kafa ofan í þetta, hver áhrifin yrðu í raun — sé að þetta sé einfaldlega innfluttur áróður, þýddur samkvæmt áróðrinum sem tíðkaður er í Evrópusambandinu, án þess þó að hann sé staðfærður?