149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er væntanlega alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég var að vísu illa fjarri góðu gamni þegar fyrri umr. í síðustu viku átti sér stað, þ.e. fyrri hluti hennar, en fylgdist þó í sjálfu sér nokkuð með umræðum, hverjir væru að tjá sig. Ég held að þetta gæti verið sambland af tvennu: Þegar fyrirvararnir gufuðu upp eða hurfu eða fundust ekki kann að vera að runnið hafi upp fyrir stjórnarliðum, sem höfðu látið fá sig til fylgilags við þetta mál, að málið væri ekki á eins traustum grunni byggt og þeir töldu. Það kann að vera að þeir hafi talið að þeir hafi verið blekktir og það kann að vera að þeir hafi hreinlega ekki treyst sér til að verja þennan vonda málstað sem þeir voru allt í einu orðnir þátttakendur í.

Aftur á móti er það þannig, eins og hv. þingmaður veit, að þegar maður er með sannfæringu fyrir því að það sem maður er að berjast fyrir sé rétt, þegar öll grundvallaratriði, öll rök og öll gögn benda til þess að maður hafi rétt fyrir sér eða sé að berjast fyrir réttan málstað, telur maður ekki eftir sér að standa hér tímunum saman til að reyna að fá aðra á sitt band og til að reyna að fá aðra til að sjá að sér, ef ég get orðað það þannig, vegna þess að það eru svo margir, og þá er ég að tala um sérfræðinga, ekki okkar pólitíkusana, sem eru búnir að benda á hvað rétt sé að gera í þessu máli. Við erum svo sem búin að hamra á því en fyrir algerlega daufum eyrum sem er mjög slæmt. Hvað neytendaverndina varðar verð ég væntanlega að svara því í seinna andsvari því að ég sé að tíminn er alveg að renna frá mér.