149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:20]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Í raun er ágætt að hv. þingmaður skyldi ekki hafa tíma til að svara spurningunni um neytendaverndina vegna þess að ég hafði sjálfur ekki haft tíma til að klára þá spurningu. Fyrir vikið gefst mér tækifæri til að klára spurninguna og hv. þingmanni að svara henni.

Það sem ég var að byrja að ýja að var hvort þessar fullyrðingar — innihaldslausu eins og hv. þingmaður hefur leitt okkur fyrir sjónir og greinarhöfundur — um að í þriðja orkupakkanum felist neytendavernd séu afleiðing af því að menn taka við erlenda áróðrinum, þýða hann einfaldlega og endursegja án þess að hafa hugmynd um hvað er að baki.

En þá að viðbótinni við þessa spurningu sem vantaði hjá mér: Ef þessi er raunin, sem mér virðist augljóst, hvað segir það okkur þá um innleiðingarnar sjálfar? Segir það okkur ekki að fólk sem hefur ekki einu sinni fyrir því að kanna hvort áróðurinn eigi yfir höfuð við sé ekkert að kanna hvað felst í innleiðingunum, hvers eðlis þær eru? Það hefur ekki lagst yfir reglugerðirnar, eins og t.d. hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson hefur gert með góðum árangri — og verið að útskýra það fyrir okkur og landsmönnum hér í nokkrum ræðum. Það fólk sem þýðir erlendan áróður án þess einu sinni að hafa fyrir því að staðfæra hann er varla búið að kynna sér innihald málsins sjálfs til hlítar enda sjáum við það á allri umfjöllun um þetta mál að hún hefur verið í skötulíki af hálfu meiri hlutans og án tilvísunar til undirliggjandi staðreynda.