149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:32]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta vekur vissulega hjá mér ugg, en ekki aðeins vegna fjárhæðanna heldur einnig vegna þess að þegar um slíkar fjárhæðir er að ræða eru þær notaðar sem valdatæki, rétt eins og við heyrum ráðherra í ríkisstjórninni halda því fram að við verðum að fallast á frumvarp varðandi ófrosna kjötið og gerilsneyddu matvælin vegna sektargreiðslna, þ.e. til að forða frekari sektargreiðslum. Þá finnst manni nú blasa við að þess sama væri að vænta þegar farið væri að beita slíku valdatæki, sem væri auðvitað enn þá sterkara í tilviki orkumálanna í ljósi þeirra upphæða sem þar kynnu að vera undir, þá fengjum við þingmenn að heyra það frá stjórnvöldum að jú, þau teldu þetta nú kannski ekki sanngjarnt, þetta væri ekki í samræmi við fyrirvarana eins og stjórnvöld hefðu skilið þá á sínum tíma. En þetta væri bara niðurstaðan. Og ekki gætum við haldið áfram að greiða sektir, við yrðum að spara peninga Landsvirkjunar, eða ríkisins, og þar af leiðandi að láta okkur hafa það að ráðast í þær breytingar sem þessir aðilar væru að knýja á um.

Þetta er ekki bara spurning um það fjárhagslega tjón sem gæti orðið fyrir fyrirtæki eins og Landsvirkjun, jafnvel þó að sektir í því tilviki kynnu að renna í ríkissjóð að miklu leyti. En þetta er ekki bara spurning um fjárhagslegt tjón þessara fyrirtækja heldur einnig það vald sem felst í því að geta lagt á sektirnar.