149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:37]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Fyrst stuðningsmenn málsins treysta sér ekki til að útskýra þetta fyrir hv. þingmanni verð ég líklega bara hlaupa í skarðið og leitast við að gera það í staðinn.

Atriðið sem hann nefndi varðandi Orkustofnun er einmitt mjög lýsandi dæmi um það hvernig menn afvegaleiða umræðuna viljandi eða óviljandi og halda því fram að eitthvað sé allt annars eðlis en það raunverulega er. Þrátt fyrir það í þessu tilviki, þ.e. í tilviki Orkustofnunar, liggur fyrir frumvarp sem er meira að segja á dagskrá þingfundar í dag þar sem gert er ráð fyrir að eðli Orkustofnunar verði breytt, hún verði tekin undan valdi lýðræðislega kjörinna fulltrúa og öðlist einhvers konar sjálfstæði. Nema hvað, þegar þessar breytingar eru settar í samhengi við reglugerðirnar sem hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson hefur verið að rekja hér, þá sér maður að þetta er ekki gert til þess að Orkustofnun verði sjálfstæð. Þetta er gert til þess að hún verði sjálfstæð frá íslenskum stjórnvöldum og geti þegið leiðbeiningar, skulum við kalla það til að vera kurteisir, frá ACER, enda fær hún þá hlutverk sem er vel skilgreint í Evrópureglugerðum, verður svokallaður landsreglari. Það er einn slíkur í hverju landi sem má í rauninni líta á sem nokkurs konar útibú frá ACER í stóra samhenginu.

Svo koma menn og segja: Engar áhyggjur, engar áhyggjur. Þetta er bara sjálfstæð stofnun, hin íslenska Orkustofnun, sem mun fylgjast hér með gangi mála, en kafa ekki dýpra en svo að þeir (Forseti hringir.) líta ekki til þess hvers vegna verið er að breyta. En það er til að þiggja leiðsögnina að utan.