149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:39]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við höfum eytt drjúgum tíma í að útskýra eins vel og við getum hvernig fyrirvarar geta ekki haldið. Það virðist alla vega okkur vera morgunljóst og sá sem hér stendur hefur nú gefið færi á fyrir þá sem eru fylgjandi þessari innleiðingu að koma hér og eiga við mig rökræðu og gera mig afturreka með það sem ég hef fullyrt hér og hef reynt að styðja rökum eins vel og ég mögulega get. En það sorglega er að þeirri áskorun er ekki tekið og hér hefur enginn efnislegur málflutningur og engin efnisleg rök komið fram í þessu máli sem styðja það að þeirri leið sem valin er hér og varað hefur verið við af okkar færustu fræðimönnum fylgi lagaleg óvissa. Ekki er gerð heiðarleg tilraun til þess að rökstyðja hví sú leið er farin. Sætir það ekki furðu? Er ekki eitthvað bogið við það að bjóða almenningi, og þótt ekki væri nema þingheimi, upp á það að rökstyðja ekki mál sitt í jafn veigamiklu máli og orkupakki þrjú er og fjallar um nýtingu og ráðstöfun orkuauðlindar Íslands, fallvatnanna, raforkunnar, sem er okkar allra?