149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:46]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, að sjálfsögðu munum við gera það. Ég á ekki erfitt með að bregðast við þeirri áskorun hv. þingmanns vegna þess að við höfum raunverulega trú á afstöðu okkar í málinu. En það er ekki að sjá að allir þeir sem boðað hafa stuðning við það í þinginu hafi raunverulega trú á málinu, a.m.k. ekki meira en svo að þeir treysti sér ekki til að koma hingað og rökstyðja málið.

Ég velti því upp áðan hvort það kynni að hafa eitthvað með það að gera að því fleira sem við bentum á í umræðunni þeim mun erfiðara reyndist af stuðningsmönnum málsins að verja það. Mér fannst ég t.d. sjá verulegan mun á vilja stuðningsmanna þessa þriðja orkupakka til að tala fyrir honum eftir að í ljós kom að fyrirvararnir reyndust innihaldsrýrir eða jafnvel óljóst hvort fyrirvararnir væru til sem slíkir yfir höfuð. Eftir að sú umræða hófst þá fór mjög skyndilega að þynnast í hópi stuðningsmanna þessa máls hér í þingsal og í þessum ræðustól.

Það segir sína sögu um mikilvægi þessarar umræðu. Það segir sína sögu um hversu innihaldsrík hún er, að við séum að benda á atriði sem standast það vel skoðun að menn treysta sér ekki einu sinni til að koma upp og andmæla okkur.