149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni og eins og hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson hefur dregið svo eftirminnilega fram segir hann svo sannarlega það sem hv. þingmaður hafði eftir honum, það væri að meinalausu að fara þessa leið. Reyndar sýnist mér að tónninn í stuðningsliði þessa máls hafi breyst mjög gagnvart áliti prófessors Baudenbachers. Það er vegna þess að þar eru inn á milli ummæli sem henta ekki þeim aðilum sem vilja innleiða orkupakkann. Það er til að mynda þegar hann talar um hollustuskyldu Íslendinga gagnvart Norðmönnum og Liechtenstein og þegar hann talar um að Norðmenn líti á aðild sína að Evrópska efnahagssvæðinu sem eins konar tvíhliða samning þar sem Ísland og Liechtenstein séu í aukahlutverki. Það er vel skiljanlegt, þótt það sé kannski ekki stórmannlegt, að þeir sem standa að þessu máli eru ekki áfram um að halda þessu áliti í raun og sanni mikið á lofti.

Þannig standa nú þessi mál, herra forseti. Þess verður auðvitað lengi minnst að menn skuli hafa brugðið á það ráð að kalla til erlenda ráðgjafa til að reyna að lama viðnámsþrótt þjóðarinnar, draga úr henni kjark við að verja sína grundvallarhagsmuni, sínar náttúruauðlindir, og víkja frá þeirri meginreglu eins og hún er dregin upp í hinni stórmerku umsögn Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem liggur hér fyrir sem þingskjal, sem umsögn sem fylgir þessu máli, að það komi ekki til greina, eins og hann orðar það, að fyrir aðgang (Forseti hringir.) að markaði sé greitt með aðgangi að auðlind.