149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:18]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir ræðuna og ég þakka honum sömuleiðis fyrir þá miklu vinnu sem hann leggur á sig við að gera leit að fyrirvörum. Ég lít á ræðu hv. þingmanns sem eins konar áfangaskýrslu og hann hefur boðað að næstu verkefni í þeirri leit sé að rannsaka færslu sem hv. þingkona Framsóknarflokksins miðlaði til lesenda sinna af miklum lögfræðilegum metnaði, að því er sýnist, og gæti jafnvel virst við nákvæman lestur þeirrar færslu að þar væri efni í stjörnulögfræðing, sem svo eru kallaðir nú á dögum.

Herra forseti. Hv. þingmönnum stjórnarflokkanna er vorkunn. Hvað eiga þeir að gera? Hvaða erindi eiga þeir í þessa umræðu? Þeir hafa með fjarveru sinni hér lýst því skýrar en með nokkrum orðum að þeir telja sig ekki eiga erindi í þessa umræðu. Og þeim er vorkunn vegna þess að hvað á blessað fólkið, hv. þingmenn, að segja? Þetta mál er hræmulegt í allri sinni gerð eins og við þingmenn Miðflokksins erum búin að leiða í ljós í þessum málflutningi. Það stendur ekki steinn yfir steini.

Það er hver sótraftur á sjó dreginn hér þegar allt er í tómu tjóni, eins og stundum er sagt nú á dögum, og kallaður lagalegur fyrirvari. Og menn hafa gert sjálfa sig að eins konar aðhlátursefni sem tefla fram hinum og þessum hugmyndum um það í hverju þessi lagalegi fyrirvari væri fólginn. En allir þessir lagalegu fyrirvarar eiga eitt sameiginlegt (Forseti hringir.) eins og kom glögglega fram í máli hv. þingmanns, (Forseti hringir.) þeir hafa ekkert þjóðréttarlegt gildi.(Forseti hringir.) Núll.