149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir innlegg hans.

Mál þetta fjallar í stuttu máli um það, fyrir þá sem eru að hlusta, að ríkisstjórnin ætlar að innleiða þriðja orkupakkann, sem svo er kallaður, þó að lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar hafi varað við því að þarna séu ákvæði sem verulegur vafi sé um að standist stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Þegar þetta á að innleiða með því sem kallast er að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara, sem við gerum með þessari þingsályktunartillögu sem við ræðum hér, er þeirri áhættu hvað varðar stjórnarskrána eytt með orðalagi sem við höfum verið að deila á, þ.e. að þetta verði gert með lagalegum fyrirvara, þess vegna sé ekki nein hætta fyrir stjórnarskrána. Þetta er mjög einfalt í örfáum orðum.

Við höfum verið að benda á og spyrja eftir því: Hvar eru þessir lagalegu fyrirvarar? Við höfum fengið svör. Við höfum tekið þau og greint margoft og komið upp í ræðum og komist að þeirri niðurstöðu, margoft, að þetta stenst ekki. Þessir lagalegu fyrirvarar standast ekki. Þetta eru ýmsar yfirlýsingar, einhverjar breytingar á lögum sem þegar er að finna í lögunum. Þetta eru einhverjar velviljaðar fundargerðir um að við séum eyja og hingað liggi ekki strengur svo hægt sé að leiða hingað rafmagn. Þetta kalla stjórnarliðarnir lagalegan fyrirvara. Þetta er bara orðskrúð, herra forseti.

Ég spyr þeirrar spurningar, sem ég vil ógjarnan gera: Eru menn með þessu að ástunda blekkingar?