149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:23]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það vekur sannarlega athygli að hv. þingmenn Framsóknarflokksins, svo að dæmi sé tekið, hafa fæstir tjáð sig um málið. Þeir sem hafa gert það að einhverju leyti hafa bersýnilega varast að lýsa afstöðu.

Hvað varðar hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa menn á undanförnum vikum mátt lesa í blöðum einhvers konar afsökunarbeiðnir frá þeim fyrir þá afstöðu sem þeir lýsa með stuðningi við þennan orkupakka. Á síðustu dögum er farið að bera á einhverjum rökstuðningi sem stenst enga skoðun þar sem því er haldið fram að raforkuverð muni lækka, sem er fráleitt eins og allir sjá. Því er haldið fram að þetta sé neytendamál gagnvart þjóð sem býr við eitt lægsta raforkuverð í Evrópu. Stenst enga skoðun. Því er haldið fram að hér sé spurning um eitthvert jafnræði. Það er ekkert útskýrt hvað í því felst. Og svo er því haldið fram að þetta sé nauðsynlegt til að tryggja að hér sé opið og frjálst samfélag, að innleiða þennan orkupakka og veita erlendum aðilum ítök í orkuauðlindir þjóðarinnar, skipulag, ráðstöfun og nýtingu.

Málið stendur þannig að fara á að samþykkja að veita erlendum aðilum ítök í auðlindir þjóðarinnar án þess að svar liggi fyrir eða nokkur greining á næsta orkupakka, þeim fjórða. Það er engin greining á reynslu Norðmanna. Það er engin greining á þjóðhagslegum afleiðingum. Það er engin hagfræðileg greining á raforkuverði. Þetta mál er svo fullkomlega óboðlegt, herra forseti, (Forseti hringir.) að það hálfa væri nóg, eins og stundum er sagt.