149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:34]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki amalegt fyrir okkur í þingflokki Miðflokksins að hafa í einum og sama manninum lögfræðing, lögreglumann og fyrrverandi sýslumann, við það að leita að fyrirvörum ríkisstjórnarinnar gagnvart þriðja orkupakka Evrópusambandsins. En þrátt fyrir mikla vinnu og góðan vilja þá heyrist mér hv. þingmaður ekki enn hafa fundið raunverulegan lagalegan fyrirvara. Leitin heldur eflaust áfram og ég hlakka raunar til að heyra meira af árangrinum til þessa, af því að ég tók eftir því að hv. þingmaður náði ekki að klára yfirferð sína áðan.

Hv. þingmaður nefndi það að hann gerði ráð fyrir því að þessum ímynduðu fyrirvörum sem nefndir hafa verið til sögunnar yrði líklega sópað út af borðinu. Þá varð mér hugsað til orða hv. þm. Haralds Benediktssonar sem sagði einmitt um hugsanlega fyrirvara, án þess að hann hefði þá séð hvernig þeir litu út, að Evrópusambandið myndi sópa öllu slíku út af borðinu eins og dauðum flugum. Líklega hitti hv. þm. Haraldur Benediktsson þar naglann á höfuðið. Vonandi þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þetta mál mun hv. þingmaður greiða atkvæði í samræmi við það.

En spurning mín til hv. þingmanns tengist reynslu hans og menntun sem lögfræðings. Mig langar að biðja hann að útskýra með hvaða hætti væri hægt að leggja fram fyrirvara sem héldu gagnvart þessu máli, þ.e. fyrirvara sem skiluðu raunverulegum undanþágum.