149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Hvað hefur gerst? Það hefur eitthvað mikið gerst því að ýmsir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar stjórnarliðsins hafa verið afdráttarlausir og lagt fram prýðisgóð rök til að vara við þeirri þróun sem sama fólk reynir nú að innleiða. Það sem vekur kannski sérstaka undrun í því sambandi er að þetta fólk skuli þá ekki koma hingað og útskýra hvað valdi, hvers vegna það hafi skipt um skoðun.

Það kann að vera að það hafi komist að einhverju nýju og að þetta snúist ekki bara um hópeflisfund í ráðherrabústaðnum með fulltrúum allra stjórnarflokkanna eða innrætingarfund eða hvað við skulum kalla hann. Það kann að vera að menn hafi heyrt eitthvað sem sannfærði þá. En ef það sannfærði þá því þá ekki að koma hingað og segja okkur frá því svo að það geti þá hugsanlega sannfært okkur eða einhverja þá sem kunna að vera að fylgjast með. Nei, þess í stað halda menn sig fjarri.

Sá hv. þingmaður sem nefndur var, Kolbeinn Óttarsson Proppé, hefur að vísu sést hér í húsinu. Stöku sinnum kemur hann og stekkur fyrir myndavélina til að sjást í mynd en tekur ekki þátt í umræðunum. Hvers vegna skyldi það vera? Ég ætla að leyfa mér að varpa fram kenningu, sem ég held að geti ekki talist langsótt þegar allt kemur til alls, þegar við lítum á allar staðreyndir málsins. Ég ætla að varpa fram þeirri kenningu að hv. þingmaður hafi meiri sannfæringu fyrir þeirri afstöðu sem hann lýsti í því sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson las upp en þeirri afstöðu sem hann hyggst greiða atkvæði.

Telur hv. þingmaður, hafandi kynnt sér fyrri skrif hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés, að það kunni að vera ástæðan?