149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, hvað getum við gert? Það sem við höfum verið að gera hér undanfarin dægur er að ræða þetta mál enn betur en við höfðum gert áður til þess að öðlast dýpri skilning á því sjálf. Líkt og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé var ég á móti þessu máli í fyrra en ólíkt honum er ég það enn. Ég hef ekki séð nein rök eða breytingar á málinu sem hvetja mig til að skipta um skoðun, þó að það sé hygginna manna háttur að gera það.

Í þessu máli hefur enginn andi komið yfir mig sem segir mér að það sé algerlega nauðsynlegt að venda skrúfunni og stökkva af málinu eins og það er nú. Ég hef ekki séð það. Ég veit ekki hvort það gæti sannfært þessa ágætu þingmenn að vera hér — og nú gengur ágæt hv. þingkona hingað áleiðis í salinn og er boðin velkomin, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Það gæti örugglega orðið til þess að auka skilning okkar að eiga nokkrar samræður við þingmenn eins og hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur sem hefur djúpa þekkingu á þessu máli.

Það kann vel að vera, ef hún gæfi sér tíma til að vera hér með okkur, að hún gæti sannfært okkur um hversu gott þetta mál er og sannfært okkur um að við höfum vaðið í villu og svíma. En það hefur ekki verið boðið upp á það til þessa. Þess vegna situr maður eftir og skilur ekki hvers vegna þessir ágætu þingmenn hafa snúið við blaðinu og heilu þingflokkarnir gengið á bak landsfundar- og miðstjórnarfundarsamþykktum.