149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:08]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, rétt eins og Björn Bjarnason rakti svo vel á sínum tíma á þetta alls ekki við hér og getur jafnvel haft öfug áhrif miðað við það sem til er ætlast. Björn nefnir reyndar, það er nú kannski það eina sem maður myndi setja út á, að hann sé ekki á móti markaðsvæðingu orkunnar, en tekur þó fram að það þurfi að gerast á íslenskum forsendum. Ég ímynda mér nú að hann hafi m.a. verið að vísa til þess að við þyrftum að hafa tækifæri til að nýta orkuna í þágu atvinnuuppbyggingar og byggðamála, það sé hluti af því að gera þetta á íslenskum forsendum. En sú breyting sem hv. þingmaður nefnir varðandi það að loka á möguleikana á að nýta raforku á félagslegum forsendum, er auðvitað hluti af þessari grimmu markaðsvæðingu alþjóðahyggjunnar og felur ekki í sér að það styrki samkeppnisstöðu Íslands, heldur þvert á móti. Vegna þess að orkan, orkuframleiðsla og dreifing, hefur verið svo mikilvæg undirstaða alls annars atvinnulífs hér á landi. Og í því felst, þ.e. hversu verðmæt þessi auðlind er, að hún gerir okkur kleift að gera svo margt annað sem ella væri ekki mögulegt. Hún hefur gert okkur kleift að byggja upp atvinnulíf víða um land þar sem það hefur átt undir högg að sækja af ýmsum ástæðum. Þá hefur orkan komið til hjálpar og verið nýtt til þess að snúa þeirri þróun við. Svoleiðis að það er algjörlega afleitt út frá íslenskum hagsmunum og íslenskum aðstæðum að menn skuli nema brott þennan möguleika.