149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:16]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef stundum haldið því fram að sagan endurtaki sig og stundum sagt að þeir sem læra ekki af sögunni séu dæmdir til að endurtaka hana. Það er í raun sláandi að lesa þessa lýsingu á t.d. afstöðu Björns Bjarnasonar, viðvörunum hans og góðum rökstuðningi fyrir því hvers vegna ætti ekki að innleiða aðra raforkutilskipunina, sem síðan var kölluð annar raforkupakkinn, þótt það hafi ekki verið nærri því eins íþyngjandi gerð eða pakki og nú er um að ræða. En þarna var varað við og bent á að sá möguleiki væri fyrir hendi að fá undanþágu enda ætti þetta ekki við um íslenskar aðstæður og yrði jafnvel til tjóns.

Það sem vakti sérstaka athygli mína í þessari grein var að þrýstingurinn virtist koma frá utanríkisráðherranum sem væntanlega var undir þrýstingi frá Evrópusambandinu. Sá þrýstingur virðist hafa orðið ofan á. Þess vegna óttast ég nú að sagan sé einmitt að endurtaka sig. Þrátt fyrir varnaðarorð eins og þau sem hv. þingmaður las upp áðan frá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé og þau sem við höfum lesið upp eftir Bjarna Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra, og væri hægt að vísa í fjölmarga aðra hæstv. ráðherra og þingmenn sem nú virðast ætla að styðja þetta mál, þá virðist vera að kerfið sigri að lokum ef stjórnmálamennirnir spyrna ekki við fótum, standa ekki í lappirnar og segja: Hingað og ekki lengra. Nú er sá tímapunktur að við verðum að gera það.