149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:20]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er ekki nema von að hv. þingmaður eigi erfitt með að átta sig á því. En hann kom inn á gríðarlega áhugavert atriði í þessu samhengi öllu, benti á að það væru tiltölulega litlar líkur, ég held að sé óhætt að gera ráð fyrir því, á að þessi innleiðing hefði notið mikils stuðnings í kosningum eða þeir flokkar sem það hefðu boðað. Það er einmitt málið. Þetta snýst ekki um vilja almennings. Svona mál eru ekki innleidd, það er ekki ráðist í svona mál vegna þess að það sé vilji almennings. Með öðrum orðum, þetta eru ekki beinlínis lýðræðisleg mál. Og hvers vegna er það þá gert?

Greinin sem ég las upp úr áðan veitir okkur innsýn í það. Það er ekki að ástæðulausu að ég las upp úr þessari grein. Hún var áminning um að það er alltaf hætta á því að ef stjórnmálamenn láta hjá líða að stjórna þá ráði kerfið för á endanum. Það gerði það í tilviki annarrar orkutilskipunarinnar og nú er útlit fyrir að það gerist aftur, að niðurstaðan verði ekki það sem fólk valdi sér í kosningum, ekki það sem almenningur styður eftir kosningar og svo sannarlega ekki það sem stuðningsmenn stjórnarflokkanna vilja, heldur vilji kerfisins í Brussel sem er vant því að fá sitt fram á endanum vegna þess að það er vant því að stjórnmálamenn þori ekki að stjórna.