149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann fór hér yfir reglugerðir Evrópusambandsins sem á að fara að innleiða í íslenskan rétt. Þriðji orkupakkinn er í raun pakki af reglugerðum sem lúta að því að hér verði sameiginlegt markaðssvæði raforku og við verðum þátttakendur í því á sameiginlega Evrópska efnahagssvæðinu.

Það sem mig langaði aðeins að nefna við hv. þingmann er einmitt þetta með reglugerðirnar. Nú er t.d. ein tilskipun frá 2009 nr. 72 sem kveður á um, það er f-liður 37. gr., um skyldu eftirlitsyfirvalds:

„að tryggja að engar víxlniðurgreiðslur séu milli flutnings-, dreifingar- og afhendingarstarfsemi“.

Þetta er tilskipun sem hreinlega dregur úr möguleikum okkar til að niðurgreiða raforku, t.d. til kaldra svæða.

Það er fróðlegt, herra forseti, að skoða ræður þeirra sem voru á móti orkupakka eitt og tvö á sínum tíma. Þar var t.d. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hann flutti eina sína bestu ræðu þegar hann talaði gegn orkupakka eitt og tvö hér í þingsal í mars 2003. Hann segir í sinni ræðu að hann sé þeirrar skoðunar að þingmenn hafi ekki sett sig nægilega vel inn í málið og viti í raun og veru ekki um hvað það snúist.

Ég spyr því hv. þingmann: Er ekki veruleg hætta á því að þingmenn setji sig ekki inn í þessar reglugerðir, lesi þær ekki og viti ekki nákvæmlega hvað þær fjalla um? Það er alveg greinilegt því að auðvitað vilja þingmenn ekki mæla fyrir því að raforkuverð hækki á Íslandi — en það er bara staðreynd í þessu máli.