149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég vil aðeins halda áfram með þetta, að þingmenn séu ekki nægilega vel inni í þeim reglugerðum sem verið er að innleiða. Stjórnarliðar hafa margsinnis sagt að þetta eigi ekkert við okkur vegna þess að sæstrengur sé ekki til staðar, að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu.

Hins vegar erum við að innleiða margar reglugerðir í þessum pakka, sem heitir orkupakki þrjú, og þar er t.d. tilskipun 72/2009 sem felur í sér að stjórnvöld eigi að tryggja að það verði engar niðurgreiðslur, víxlniðurgreiðslur eru þær kallaðar, hvað svo sem það merkir, milli flutnings-, dreifingar- og afhendingarstarfsemi. Það er bara verið að flækja orðalag, þetta þýðir bara að það verða engar niðurgreiðslur. Við niðurgreiðum raforku í dag til húshitunar á köldum svæðum, svo að dæmi sé tekið. Sú reglugerð er algerlega óháð sæstreng, hún kemur til með að hafa áhrif um leið og búið er að samþykkja þennan pakka hér. Því hefur ekkert verið svarað hvaða áhrif hún kemur til með að hafa fyrir þá sem kynda hús sín með rafmagni. Þetta er nákvæmlega það sama og við upplifðum þegar orkupakki eitt var innleiddur. Þá gátu stjórnvöld ekkert svarað því og töldu að rafmagn til húshitunar myndi ekki hækka. Allt annað kom á daginn. Ég held að við séum komin í nákvæmlega sömu spor, herra forseti, og við vorum í þegar við innleiddum orkupakka eitt. Afleiðingarnar urðu mjög slæmar, sérstaklega fyrir landsbyggðina og fyrirtæki sem keyptu ódýra raforku sem var afhent að næturlagi.