149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:35]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur. Hann spyr hvort það geti verið að þingmenn séu ekki inni í málinu. Ég er auðvitað ekki rétti maðurinn til að svara því, alls ekki. En miðað við óðagotið sem varð um daginn, þegar hv. þm. Miðflokksins, Ólafur Ísleifsson, spurði hvar hann gæti fundið þennan lagalega fyrirvara mætti halda það. Menn hlupu hér eftir göngum í leit að þessum lagalega fyrirvara. Og miðað við það hvernig svörum var háttað mætti líka halda það. Þingmenn stjórnarliðsins komu upp hver á fætur öðrum og bentu á lagalega fyrirvara, þennan eða hinn, og áður en dagur var liðinn var búið að benda á fjóra möguleika, hvar þennan lagalega fyrirvara væri að finna.

Miðað við þetta spyr maður sig: Getur verið að þessi lagalegi fyrirvari sé einhvers konar orðskrúð, eins og ég hef orðað það, orðskrúð sem er til þess fallið að slá ryki í augun á fólki sem ekki vill eða hefur tíma til að kynna sér málið?

Við höfum í okkar umræðum fjallað ítarlega um þetta en ekki enn fundið rétta lagalega fyrirvarann. Ef hann er eitt af því sem við höfum nefnt höfum við líka rökstutt það að slíkur lagalegur fyrirvari, hver sem hann er, heldur ekki. Ég vil því gefa stjórnarliðinu fullan tíma til að koma og benda okkur á þennan lagalega fyrirvara.