149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:39]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þessar spurningar. Ég á auðvitað engin svör við því hvers vegna. Ætli svarið sé ekki bara: Af því bara? Og þá spyr maður aftur: Af því bara hvað? Þá fær maður svar eins og litlu börnin myndu svara: Af því barasta það.

Það er nefnilega fátt um svör, það alveg rétt hjá hv. þingmanni. Okkur finnst augljóst og höfum rökstutt að það sé augljóst að nýta okkur ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og fara með þetta mál til baka til sameiginlegu nefndarinnar og reyna að fá undanþágu eins og heimilt er í ákvæði 102. gr. Svo augljóst. Þeir segja að þetta eigi ekki við. Á þá ekki að vera einfalt og auðvelt að fá undanþágu frá þessu? Mætum við ekki skilningi? Við virðumst mæta skilningi miðað við yfirlýsingar fulltrúa þessara þjóða.

Hv. þingmaður segir að þetta sé í andstöðu við vilja þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnunum. Já, það virðist vera að þetta sé í andstöðu við kjósendur allra flokka, held ég, sem eiga fulltrúa á Alþingi. Já, ég held ég hafi séð könnun þar að lútandi, að málið sé í andstöðu við ályktanir Sjálfstæðisflokks Íslands og Framsóknarflokksins. Landsfundarályktanir. Það sé í andstöðu við mjög mikinn meiri hluta allra umsagna sem bárust inn til utanríkismálanefndar þegar málið var til umfjöllunar þar. Já, það er í andstöðu við þær. Jákvæðu umsagnirnar eru aðallega frá stofnunum og orkufyrirtækjunum og veitum sem flestar eru í opinberri eigu. Já, en það er stutt af 80% þingmanna.