149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:44]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka enn og aftur hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir spurningarnar. Ég hef ekki aflað mér svara við spurningunni hvers vegna þetta er svona. Ég hef ekki komist að því á þeim stutta tíma síðan ég var í ræðustól. En 80% kjörinna þingmanna þjóðarinnar virðast vera fylgjandi þessu máli, þó að ég hafi það ekki upp á punkt hvernig það stendur. En svo virðist vera.

Ég er með fimm umsagnir frá sveitarfélögum vítt og breitt um landið. Það er athyglisvert að í umsögn Dalabyggðar brýna þeir þingmenn til að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Í umsögn Grímsnes- og Grafningshrepps leggjast þeir hreinlega alfarið á móti innleiðingu orkutilskipunar Evrópusambandsins. Í umsókn Hrunamannahrepps lýsa þeir miklum efasemdum um þörf á innleiðingu þessarar orkutilskipunar. Í umsögn sveitarfélagsins Skagafjarðar er það einróma samþykkt, 9:0, að þeir vilja að ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga. Í umsögn Bláskógabyggðar má lesa alvarlegar ábendingar og brýningu til stjórnvalda um að sýna varkárni í þessu máli.

Herra forseti. Ef ég les úr umsögn sveitarstjórnar Bláskógabyggðar:

„Brýnt er að tryggt sé að ekki felist afsal á valdi í samþykktum Alþingis vegna innleiðingarinnar og að hún feli ekki í sér töku ákvarðana sem hafa í för með sér hækkun á raforkuverði. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggur mikla áherslu á að löggjafar-, ríkis- og dómsvald í orkumálum verði alfarið í höndum Íslendinga. Af hálfu Bláskógabyggðar er lögð rík áhersla á að innlend orka verði notuð til innlendrar framleiðslu, en ekki flutt út sem hrávara.“

Sveitarstjórnin telur loks „afar brýnt er að ljúka vinnslu heildstæðrar orkustefnu fyrir Ísland“. Hún kallar eftir orkustefnu í samráði við sveitarfélögin. „Orkumál er[u] afar mikilvægt byggðamál.“