149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það sem rekur mig upp í þennan ræðustól að ræða fundarstjórn forseta eru fréttir RÚV um tíuleytið þar sem fulltrúar eiginlega allra flokka á þinginu hneykslast mjög á því að við Miðflokksfólkið höfum tekið til varna fyrir meiri hluta íslensku þjóðarinnar sem er á móti því að innleiða orkupakka þrjú frá Evrópusambandinu og saka okkur um málþóf. Þau koma nú fram í einni röð og segjast öll vera björt mey og hrein og hafi aldrei nokkurn tímann málþóf stundað. Í þessum hópi er ræðudrottning þingsins síðustu sex ár að einu undanteknu ef ég man rétt. Þetta fólk kemur nú hér fram og segist aldrei hafa séð viðlíka málþóf og nú er að þess dómi þegar við stöndum hér, Miðflokksfólkið, í nokkur dægur og höldum uppi vörnum fyrir meiri hluta fólks á Íslandi sem er á móti þessum orkupakka.

Við erum margbúin að bjóða fólki og biðja það að koma hér til viðtals við okkur án árangurs og síðan kemur það fram á sjónvarpsskjánum með þetta rakalausa bull.