149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Undanfarin dægur hafa fleiri verið á áheyrendapöllum en þingmenn annarra flokka en Miðflokksins hér í salnum. Það hefur verið meiri áhugi meðal almennings í landinu á að fylgjast með þessum umræðum alla nóttina en af hálfu þingmanna annarra flokka hér. Þingmenn eru ekki einasta frammi í eldhúsi, þeir eru líka úti í garði við góðar veitingar. Þeir eru alls staðar annars staðar en í þingsalnum og, eins og ég segi, koma svo fram í sjónvarpi eins og þeir hafi aldrei heyrt á málþóf minnst. En þetta er ekki málþóf, við erum að halda uppi vörnum.

Það kom fram tillaga frá hv. þingflokksformanni Vinstri grænna um að kannski væri rétt að breyta þingsköpum til að koma í veg fyrir að svona lagað gerist aftur. Það kann vel að vera að skynsamlegt sé að breyta þingsköpum fyrir næstu kosningar í góðan tíma til að ný þingsköp gildi á næsta kjörtímabili þegar Vinstri græn verða í stjórnarandstöðu.

Það kann vel að vera, herra forseti, að það sé skynsamlegt.