149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þessi frétt birtist um tíuleytið á netmiðlunum um að við værum að halda uppi málþófi. Ég vil vitna sérstaklega í það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði í umræddu viðtali. Hún segir þar: Ungt fólk furðar sig á Alþingi. Þá á hún við málflutning Miðflokksmanna. Ég verð bara að segja, herra forseti, að ég furða mig á þeim ummælum vegna þess að ég hef einmitt fengið hvatningu frá ungu fólki sem lýsir verulegum áhyggjum yfir því að keyra eigi þetta mál í gegn sem geti valdið því að raforka til húshitunar og til almennings gæti hækkað verulega. Er það ekki einmitt þetta sem unga fólkið hefur áhyggjur af, að það sé dýrt að búa á Íslandi? Við njótum þess í dag að hafa ódýra orku og það gæti breyst með innleiðingu þessa orkupakka.

Ég verð að segja, herra forseti, að það er með ólíkindum að þingmenn skuli ganga fram með þessum hætti, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Væri rétt að forseti beitti sér fyrir því að (Forseti hringir.) hún kæmi í þingsal og svaraði spurningum og leiðrétti þær rangfærslur sínar sem birtast í þessu viðtali.