149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek undir með honum að þetta eru nokkurs konar sýndarstjórnmál, ég held að það sé óhætt að orða það þannig. Kannski má frekar tala um vanþekkingarstjórnmál, stjórnmálamenn skella hér fram einhverjum fullyrðingum sem þegar betur er að gáð fá ekki staðist. Það hefur meira að segja verið kallað frammi í sal þegar ræðumenn hafa flutt sínar ræður hér og bent á að raforkuverð hafi hækkað við innleiðingu orkupakka eitt og tvö og komi til með að hækka við innleiðingu orkupakka þrjú. Mér er í fersku minni þegar ég flutti mína fyrstu ræðu hér og benti á þetta. Ég nefndi dæmi um það hvað raforka hefði hækkað við innleiðingu orkupakka eitt og tvö. Þetta kom fram í blaðagreinum, bæði í Vísi og Dagblaðinu árið 2005, og nefndar voru tölur sem voru ótrúlega háar, á bilinu 74–96% hækkun á raforkuverði, einfaldlega vegna þess að innleiðing þessara orkupakka bannaði sérstakrar niðurgreiðslur til húshitunar og það olli verðhækkunum. Ég benti sérstaklega á þetta í ræðu hér og þá var kallað fram úr sal að þetta væri rangt. Þið sjáið hvernig málflutningurinn er í þessu máli. Svo koma þessir sömu þingmenn í fjölmiðla, á netmiðlana, og gagnrýna okkur fyrir að vera með málþóf og fara með staðlausa stafi. Ég verð að segja að ef það er eitthvað sem skaðar ímynd Alþingis er það sá málflutningur sem birtist einmitt í þessu viðtali við nokkra stjórnmálamenn og alþingismenn í á netmiðlunum um tíuleytið í kvöld.