149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:09]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, við höfum dæmi þessa sem hv. þingmaður var að lýsa hér, að ráðherrar, embættismenn og alþingismenn hafa sett fram fullyrðingar um þessar raforkutilskipanir Evrópusambandsins sem standast engan veginn. Það er náttúrlega ábyrgðarhluti þeirra ráðuneyta og ráðherra að segja við almenning að innleiðing orkupakkatilskipunar komi ekki til með að hafa áhrif á raforkuverð heimilanna. Þetta sáum við kristallast í innleiðingu orkupakka eitt og tvö. Þáverandi iðnaðarráðherra sagði í blaðaviðtali að raforkuverð myndi ekki hækka. Við höfum bréfaskriftir innan ráðuneytisins í aðdraganda þessarar innleiðingar þar sem embættismenn útlista innleiðinguna og fjalla um hana. Þar höfum við setningu eins og að líklegt sé að breytingar gætu orðið á raforkuverði. Þeir vita það í raun og veru ekki. Ég held því að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni þegar hann segir að menn taki bara á móti einhverjum yfirlýsingum eða reglugerðum sem eru þýddar. Menn vita ekki nákvæmlega hvað þær þýða. Þeim er kannski sagt, eins og hv. þingmaður nefndi, að þetta sé neytendavernd og þá halda stjórnmálamenn hér heima, embættismenn, að það þýði eitthvað gott. Við höfum séð allt annað birtast okkur í þessu og ég er ansi hræddur um það og sannfærður um að innleiðing orkupakka þrjú (Forseti hringir.) mun verða á nákvæmlega sama veg. Menn eru að innleiða eitthvað sem síðan kemur á daginn að þeir höfðu ekki hugmynd um að væri akkúrat inni í þessum orkupakka.