149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Ég held að málið sem við erum núna að fást við — þ.e. það sem kom fram í orðum þingmannsins um afstöðu ýmissa þingmanna til umræðunnar sem kemur ekki fram í þingsalnum, sem kemur ekki fram í ræðustólnum heldur kemur fram í fréttum Ríkisútvarpsins kl. 22, frá fólki sem ekki hefur sést í þingsalnum í nokkur dægur þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um — sé það sem talað hefur verið um, að stjórnmálamenn hlusti ekki á þjóðina, að hlustunarskilyrði hér inni séu svo slæm hjá ýmsum þingmönnum að þeir heyri hvorki né sjái það sem gerist utan veggjanna.

Þetta hefur einmitt heyrst og hefur fyrrverandi hv. þm. Ögmundur Jónasson orðað það mjög vel, að ekki sé verið að hlusta hér inni á það sem gerist fyrir utan. Ég held að það væri meira til árangurs fallið fyrir þá þingmenn sem saka Miðflokksfólk um að standa fyrir málþófi, þegar við stöndum hér og reynum að endurspegla og enduróma skoðanir meiri hluta landsmanna, að reyna að hlusta eftir rödd þjóðarinnar í þessu máli. Hún syngur ekki með rödd þeirra þingmanna sem ganga inn viðtöl hjá útvarpi og sjónvarp kl. 22 (Forseti hringir.) til að reyna að níða skóinn af þeim sem standa í vörn fyrir meiri hluta þjóðarinnar.