149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og afar góð orð í lok ræðu hans, að við erum hér vegna þess að við viljum standa vörð um hagsmuni almennings í þessu landi. Almenningur veit það. Eins og hv. þingmaður nefndi réttilega höfum við fengið mikla hvatningu til að halda áfram málflutningi okkar og upplýsa nákvæmlega um hvað þetta mál snýst því að ekki gera stjórnarliðar það. Ekki gerir Samfylkingin það, ekki gera Píratar það og ekki gerir Framsóknarflokkurinn það eða stjórnarliðarnir almennt eða þá Viðreisn. Nei, þeir kvarta sáran yfir því að við séum að tefja þingstörfin og skaða ímynd Alþingis. Ég verð að segja, herra forseti, að það er bara dapurlegur málflutningur, ekkert annað en dapurlegur málflutningur, að þingmenn skuli yfir höfuð hafa geð í sér að setja fram svona fullyrðingar.

Hér var nefnd neytendavernd. Hv. þingmenn Viðreisnar hafa margsinnis tuggið úr ræðustól að þetta sé svo mikil neytendavernd. Hv. þingmaður benti svo sannarlega á hversu mikilvæg hin svokallaða neytendavernd, sem alltaf er verið að tala um, er almenningi í landinu. Það er engin þörf fyrir einhverja neytendavernd. Heimilin geta skipt um orkusala, en hvað hafa þau upp úr því? Ekki neitt, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er enginn mismunur á raforkuverði. Hann er a.m.k. það lítill að það tekur því ekki að skipta um raforkusala. Þannig að við sjáum að ef einhvers staðar eru rangfærslur og að verið er að afvegaleiða umræðuna þá er það gert af hálfu stjórnarliða og meðreiðarsveina þeirra (Forseti hringir.) í stjórnarandstöðunni, Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata.