149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Í stuttu máli: Ég tel að þeim muni fækka. En það er ekki það sem málið snýst um. Við eigum hér við flokka sem sögðu fyrir ári síðan:

„Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“

Og:

„Framsóknarflokkurinn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.“

Þetta eru flokkarnir sem við erum að fást við. Þeir hafa hins vegar ekki uppfyllt þetta. Þeir gengu ekki til kosninga fyrir 18 mánuðum síðan og sögðu: Við ætlum að innleiða þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Líst ykkur ekki vel á það? Það gerðu þeir ekki. Þeir eru sem sagt að því núna á miðju kjörtímabili.

Í sjálfu sér skiptir engu máli hvaða áhrif þetta hefur á þessa flokka. Eins og stendur í bókinni góðu: Eins og þú sáir muntu uppskera. Ég trúi því að það muni verða svo með þessa flokka. Það virðist vera að sumir haldi að kjósendur séu fólk sem mætir á fjögurra ára fresti og krossi við sama lista, alveg sama hvað hefur á dunið. En það er ekki þannig. Íslenskir kjósendur, íslenskur almenningur, er skynsamt fólk. Það lætur ekki ljúga að sér mörgum sinnum, ekki sama fólkið alla vega.

Ég hef þá trú að þetta mál, verði það samþykkt, verði þeim sem standa að samþykkt þess ekki til gæfu. En það er aukaatriði í málinu. Aðalatriðið er það að samþykkt þessa máls verður ekki almenningi í landinu til gæfu. Það er verra.