149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og er sammála honum um að það verður ekki almenningi til gæfu að innleiða þennan orkupakka. Það er alveg ljóst. Við þurfum ekki annað en að skoða fyrri innleiðingar fyrri orkupakka og hvaða afleiðingar þeir hafa haft. Við erum búnir að rekja það í ræðum og upplýsa almenning og rifja upp að orkupakkar eitt og tvö höfðu veruleg áhrif, t.d. á verð til húshitunar hjá þeim sem kynda með rafmagni. Og ekki bara það, raforkuverð almennt hefur hækkað á nokkurra ára tímabili verulega meira en t.d. neysluvísitalan, sem segir okkur að reglugerðirnar hafa lagt kvaðir á þessi fyrirtæki sem gera það að verkum að raforkuverð hefur hækkað.

Það sem er kannski sýnu alvarlegast í þessum orkupakka er að ég held að afleiðingarnar verði miklu meiri því þá erum við að koma inn á sameiginlegt markaðssvæði. Við erum ekki tengd því í dag. En við erum að undirbúa þá tengingu með þessum orkupakka. Sú tenging verður komin á innan fárra ára. Þá opnast stór markaður sem þarf á hreinni orku að halda og við eigum nóg af henni. Hún er mikil verðmæti og það verður eftirspurn eftir þessari orku. Það gerir síðan að verkum að raforkuverð mun hækka hér á landi (Forseti hringir.) vegna þess að auðvitað leitar varan, sem í þessu tilfelli er raforkan, á þau svæði þar sem verðið er hæst (Forseti hringir.) og það verður hæst í Evrópu. Þar af leiðandi mun það leiða til hækkunar á raforkuverði hér á landi.